LÓKAL KYNNIR NÝJA LISTRÆNA STJÓRNENDUR

Nýir listrænir stjórnendur taka við Lókal leiklistarhátíð

Stjórn Lókal hefur ákveðið að þær Eva Rún Snorradóttir og Vala Höskuldsdóttir verði listrænir stjórnendur hátíðarinnar næstu þrjú ár, 2019-21.

Eva Rún og Vala taka við af Ragnheiði Skúladóttur og Bjarna Jónssyni sem verið hafa listrænir stjórnendur Lókal leiklistarhátíðar frá árinu 2008, en Ragnheiður hefur störf sem stjórnandi Festspillene i Nord Norge (Arctic Arts Festival) í sumar og Bjarni hyggst einbeita sér að störfum sínum sem höfundur og dramatúrg. Hann verður áfram stjórnarformaður Lókal leiklistarhátíðar.

Það er mikið ánægjuefni að þessar frábæru listakonur taki við stjórnartaumunum hjá Lókal. Þær munu nú hefja undirbúning að hátíðinni sem verður haldin í september á þessu ári.

 Eva Rún Snorradóttir (*1982) er ljóðskáld og sviðslistakona. Hún útskrifaðist úr sviðshöfundanámi við LHÍ, hefur síðan starfað með sviðslistahópnum 16 elskendur og þríeykinu Kviss Búmm Bang sem teljast til brautryðjenda í evrópskum samtímasviðslistum og hafa haft mikil áhrif á það sem kallað er „þátttökuleikhús“. Meðal fjölmargra verka hópsins má nefna Eðlileikana, Great Group Of Eight, Hótel Keflavík, Downtown 24/7 og Horfin heimili. Eva Rún hefur einnig kennt við LHÍ og setið í valnefnd Grímunnar. Hún hefur gefið út 3 ljóðabækur; Heimsendir fylgir þér alla ævi, Tappi á himninum og Fræ sem frjóvga myrkrið.

 Vala Höskuldsdóttir (*1985) er tónlistarkona og sviðshöfundur. Hún hefur starfað sem laga- og textahöfundur og söngkona með Hljómsveitinni Evu, en hefur einnig unnið leikhúsverk í samstarfi við aðra, t.d. Aude Busson. Hljómsveitin Eva hefur komið fram á tónleikum víða um land, í sjónvarpi og í útvarpi og gefið út plötu (Nóg til frammi). Hljómsveitin samdi tónlist við uppsetningu LA á Gullna Hliðinu 2014 og kom fram í sýningunni. Hljómsveitin kom einnig fram á Spectacular, sviðslistahátíð Lókal og RDF árið 2016, og flutti verkið Glæðingarmessa í samstarfi við Kvennakórinn Kötlu. Í kjölfarið vann hljómsveitin Eva röð útvarpsþátta sem báru yfirskriftina Það er allt í lagi að leggja sig á daginn. Nú síðast samdi Hljómsveitin Eva tónlistina fyrir Insomnia eftir leikhópinn Stertabendu.